14.01.2009 09:09

Verklokum í Arnkötludal ekki frestað.



Áætluðum verklokum við gerð nýs vegar um Arnkötludal hefur ekki verið seinkað þrátt fyrir að framlög til nýframkvæmda í vegagerð lækki um u.þ.b. fimm milljarða króna frá því sem fyrirhugað var á fjárlögum í haust. "Verkið mjakast áfram og það verða engar breytingar á því fyrir utan að ákveðið var að opna ekki fyrir umferð um veginn í vetur eins og ýjað hafði verið að. Verkinu á að vera lokið í haust", segir Guðmundur Rafn Kristjánsson, deildarstjóri nýframkvæmda á norðvestursvæði hjá Vegagerðinni. Nýi vegurinn um Arnkötludal verður 24,5 km langur og fer hæst í um 368 metra yfir sjávarmál við Þröskulda.

Eins og kunnugt er tengir vegurinn Reykhólahrepp og Strandir og liggur um Arnkötludal og Gautsdal, lítið eitt norðar en núverandi vegslóði um Tröllatunguheiði. Verkinu á að vera að fullu lokið fyrir 1. september.

Aðspurður um vegaframkvæmdir í Mjóafirði segist Guðmundur Rafn eiga von á að þær hefjist að nýju í apríl, maí eða þegar veður leyfir. Vegurinn frá vegamótum Eyrarfjalls í Ísafjarðardjúpi að Mjóafjarðarbrú er fullbúinn með bundnu slitlagi og brýrnar í Reykjarfirði og Vatnsfirði eru fullbúnar. Umrædd leið er álíka löng og núverandi leið yfir Eyrarfjall. Sú leið hefur oft verið lokuð um fjóra mánuði á ári vegna snjóþyngsla og þungatakmarkana. Þá hafa vegfarendur þurft að taka á sig 35 km krók út fyrir Vatnsfjarðarnes eftir mjóum og seinförnum vegi. Reykjanesleiðin liggur hins vegar meira og minna með ströndum fram og er því snjóléttari.

Heimild BB.is