22.11.2009 20:58

Nafngift án Strandaprests. Er Vegagerðin endanlega að klikkast. Innstrandarvegur og Þröskuldar.

http://holmavik.blog.is/users/0a/holmavik/img/oktober_2009_119.jpg

ÞRÖSKULDAR VESEN VEGAGERÐARINNAR.
1 Október síðastliðin skrifaði ég Hreini Haraldssyni Vegamálastjóra bréf vegna sterks orðróms um það að nýi vegurinn um Arnkötludal verði látin heita Tunguheiði. Og framhald af því var stofnaður hópur á Facebook Tunguheiði nei takk, Arnkötludalur já takk. Á nokkrum klukkutímum gengu 500 í þennan fésbókarhóp og núna eru 625 í þessum hóp. Vegamálastjóri Hreinn Haraldsson skrifaði mér síðan bréf sem hann sagðist ekki kannast við nafnið Tunguheiði á þennan veg, og sagði svo þetta. - Við höfum kallað þessa nýju leið Djúpveg um Arnkötludal, og engar fyrirætlanir um að breyta því, tilvitnun lokið.   Ekki var Adam lengi í Paradís hjá toppum Vegagerðarinnar. Nú er Vegagerðin farin að kalla vegin um Arnkötludal ÞRÖSKULDA, ekki eins og Vegamálastjóri sagði í svarbréfi til mín, Djúpveg um Arnkötludal.  Vegagerðin segist vera með 3 vinnuheiti á þessum nýja vegi, Arnkötludal, Þröskuldar og Gautsdalur, en í öllum fréttum og vefmiðli Vegagerðarinnar er einungis notað nafnið Þröskuldar, þvert á það sem Hreinn Haraldsson segir í svarbréfi til mín 1 október síðastliðin. Þetta væri svipað ef vegurinn um Holtavörðuheiði væri kallaður BLÁHÆÐ,eða vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði væri kallaður Margrétarvatn, sem engum heilbrigðum manni myndi hugnast að gera.

INNSTRANDARVEGUR, EKKI STRANDAVEGUR.

Enn og aftur er Vegagerðin að breyta nafni á vegum, þar á meðal er vegurinn frá Staðarskála hinum nýja, að Hrófá búin að fá nítt nafn INNSTRANDARVEGUR, ekki Strandavegur, eða þá Hólmavíkurvegur.  Ég hitti marga á hverjum degi og allir nema starfsmenn Vegagerðarinnar hér á Ströndum eru ekki hrifnir af þessu nýja nafni INNSTRANDARVEGUR.  Þá spyr ég hvar er þá Útstrandarvegur, hann hlýtur að vera til.   Eða er kannski málið það hjá Vegagerðinni að þegar maður ekur norður Strandir frá Staðarskála þá heitir vegurinn að Hrófá Innstrandarvegur og sömu leið til baka Útstrandarvegur.   Vegagerðin hefur enga heimild til að skíra vegi eins og þennan, sem var kallaður í árathugi Hólmavíkurvegur, og eftir að vegur var gerður yfir Steingrímsfjarðarheiðina 1984 kallaði Vegagerðin þennan veg Djúpveg.  En ekki er Vegagerðin enn þá búin að breyta nafni á veginum frá vegamótum í Staðardal út á Drangsnes, en það hlýtur að vera gert þegar verður búið að gera nýja vegin frá Grænanesmelum um fjöruna að oddagirðingunni fyrir framan Hrófberg, ætli hann muni ekki heita þá Selstrandarvegur, ekki Drangsnes-vegur, eða hvað.  Vegagerðin á ekki að vera með puttana í þessum nafnabreytingum í tíma og þó mest í ótíma.  
Ég heyri oft ferðamenn sem koma við í sjoppunni hér á Hólmavík, og oftar en ekki sögðust þeir hafa komið nýja vegin Þröskuldaheiði og stundum Arnkötludalsheiði.  Þetta er mjög bagalegt að menn skuli haga sér svona eins og Vegagerðin hefur gert með nöfn á vegum. Þetta gerir ekkert annað en að rugla fólk sem hefur ekki hugmynd hvar er vegurinn Þröskuldar, en það vita flestir ef ekki allir hvar er vegurinn um Arnkötludal sé.  Hnekkjum þessari Vitleysu hjá þeim Vegagerðarnafngiftarmönnum með nöfnin Innstrandarvegur og Þröskulda. Strandarvegur er 100% betra og sömuleiðis vegurinn um Arnkötludal.