09.05.2010 01:48

Aðalfundur kvenfélagsins Glæður verður haldin laugardaginn 15. maí kl 16:00 í kvenfélagshúsinu.


                                                            Mynd Igga.       
                                                            Aðsend grein.

Kvenfélagið Glæður var stofnað 1928. Og hefur verið starfandi síðan. Í upphafi var tilgangur kvenfélaga að hlúa að sjúkum, efla menntun og vinna að líknar og framfaramálum. Tilgangur kvenfélagsins í dag er að efla félagslegt starf meðal kvenna og að styrkja hverskonar mannúðar- og líknarmál og vinna að þeim framfaramálum er þurfa þykir hverju sinni.
Það hefur einkum snúist um fjárhagslegan stuðning til félagasamtaka eða stofnana, gjarnan til kaupa á einhverjum ákveðnum hlut(um). Kvenfélagið hefur stutt við bakið á sveitafélaginu á ýmsan hátt t.d. með kaupum á matar og kaffistelli í félagsheimilið, kaffikönnum og fleiru.  Síðast liðið ár gaf kvenfélagið hjartastuðtæki til björgunarsveitarinnar og veitti styrk til kaupa á kirkjuorgeli í Hólmavíkurkirkju.
Tekjur félagsins koma fyrst og fremst í gegnum sölu á mat og kaffi við hin ýmsu tækifæri en þó aðallega erfidrykkjur.

Svona félagsskapur er ekki bara "eitthvað svona konufélag." Lífæð hverrar byggðar er m.a. kvenfélag sem tekur að sér ýmis þurfandi verkefni í samfélaginu, verk sem erfiðara væri að fá aðra aðila til að framkvæma. Þá er félagið góður grunnur fyrir konur sem búa í nánd hver við aðra til að hittast og kynnast. Félagsstarfið er nefnilega ekki bara "bakstur og basl!" Auðvitað hittumst við til baksturs og eldamennsku ef svo ber undir en líka til að gera eitthvað fyrir okkur sjálfar..... fræðslufundir, matarkvöld, kynningar, föndur og sitthvað fleira.

 Að vera í kvenfélagi er gefandi og við höfum gaman af því - tökum tíma frá til þess að hittast, taka þátt í göfugu starfi og njóta nærveru í góðra vina hópi. Það er alltaf pláss fyrir fleiri sem hafa hug á að starfa samkvæmt því. Velkominn, nýr félagi, í hópinn !

                                                     Ingibjörg Benediktsdóttir
                                                     Kvenfélagskona