Blog records: 2024 N/A Blog|Month_3

25.03.2024 14:26

Kemur Stakkavík eða ekki?. Hver er á móti hverjum stórt er spurt svar óskast

 

Kemur Stakkavík eða ekki?.  Hver er á móti hverjum stórt er spurt svar óskast.

Sæl öll

Ég hef nú ekki gert það að vana mínum að svara einhverjum orðrómum sem ég heyri útí bæ, en í þessu tilfelli fannst mér ég vera knúinn til þess þar sem ég hef heyrt að ég væri að vinna á móti heimamönnum, þá í sambandi við 500 tonna byggðarkvóta sem Byggðarstofnun er að úthluta til Strandabyggðar.

Ég fékk pabba til þess að setja þetta á facebook síðuna sína og kem ekki til með að svara neinu, enda eru þetta mínar hugsanir um málið og auðvitað ekki allir sammála þeim.

Ég hitti menn frá Stakkavík sem höfðu samband við Strandabyggð til þess að sýna þeim staðinn og húsnæði Hólmadrangs vegna fyrirhugaðrar vinnslu. Ég var beðinn um að fara með þeim þar sem oddviti var fjarverandi. Þeir mæta hér og skoða bæinn, höfnina og húsnæði Hólmadrangs, fengu teikningar af húsinu til þess að taka með sér. Ég gat ekki verið allann tímann svo ég kvaddi þá ásamt öðru fólki tengdu Hólmadrangi og yfirgaf þau. Nokkrum dögum síðar hringir í mig annar þeirra frá Stakkarvík og þakkar fyrir túrinn sem ég fór með þeim, tilkynnti hann mér að þeir væru eitthvað að skoða málin og spurði hvort hann mætti hringja í mig ef hann þyrfti einhverjar upplýsingar um staðinn eða eitthvað slíkt, sem ég sagði að það væri ekkert nema sjálfsagt og hef yfirleitt tekið öllum sem leita til mín mjög vel. Hann bað um teamsfund með oddvitanum svona aðeins til þess að kynna sín mál, sem mér fannst nú bara frábært að svona fyrirtæki úr Grindavík hefði einhvern áhuga á að koma til Hólmavíkur með vinnslu, ég vissi að húsið þeirra í Grindavík væri ónýtt og margt af fólki þaðan sem vill ekki snúa aftur enda hefur það sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum vegna fréttaflutninga.

Ég viðurkenni vel að ég leyfði mér nú alveg að hugsa eða jafnvel dreyma um að þeir kæmu hingað með vinnslu, og við fengjum jafnvel fólk frá Grindavík sem myndi vilja setjast hér að og hefja nýtt líf, ég hugsaði þetta svo langt að ég sá fyrir mér fjölgun á börnum i bæði leik og grunnskóla. Get sagt ykkur að það er mjög gaman að geta hugsað svona en jafn ömurlegt þegar maður heyrir það, að ég væri að skemma fyrir heimamönnum og vinna að því að hér kæmi eitthvað aðkomulið sem ætlaði að hirða allt af okkur og fara með það burt. Það finnst mér alveg hræðileg hugsun ef við viljum ekki bjóða fólki hingað sem skapar svona mikið af störfum. Ekki má gleyma auknum tekjum hafnarinnar (ég var farinn að telja í kassann)?? og eins vatnsveitunnar sem missti gríðarlega miklar tekjur þegar vinnsla Hólmadrangs lokaði, mikil aukning verður á flutning þá bæði fisks og afurðum, þá má ekki gleyma fiskmarkaðinum því að sjálfsögðu fer alltaf eitthvað á markað þá það sem ekki er hægt að vinna í vinnslunni. Svona sá ég þetta fyrir mér og að þetta væri í rauninni bara rétt að fara gerast.

Á þessum tímapunkti hafði ég s.s. lítið heyrt um allt þetta mál, hélt í rauninni að þetta væri bara í góðum málum og óraði ekki einu sinni fyrir því á þessum tíma að þetta ætti eftir að valda einhverjum leiðindum og titringi í samfélaginu.

Smá útúrdúr að í rauninni var það fyrsta sem ég heyrði um þetta mál þ.e. þessi 500 tonn þegar það var auglýst, þá fékk ég fund með þeim frá Byggðarstofnun einungis með eina spurningu. „Þegar það er verið að úthluta byggðarkvóta hvort það hafi aldrei komið til tals að hafnir viðkomandi sveitarfélaga fengju kvótann til sín?“ sérstaklega þar sem engin vinnsla er og gæti leigt kílóið til sjómanna á 50-100kr pr kíló þar sem þessi afli er alltaf seldur á markaði og fæst töluvert meira fyrir hann þar heldur en beint inní vinnslu. Að leigja þorsk á almennum markaði er um 450kr pr kg svo það væri ekki há upphæð fyrir sjómenn 50-100kr pr kg og það kæmi eitthvað inn í sveitarfélögin í stað útsvars sem kæmi inní kassann ef það væri vinnsla. En eins og ég sagði hér fyrir ofan kæmu tekjur inn í sveitarfélagið með þessu og sjómenn hefðu aðeins þurft að borga 50-100kr pr kg í stað 450kr ef þeir leigja á almennum markaði. Svo má líka hugsa sér ef sveitarfélagið hefði fengið 100kr af hverju kg af þessum 135 tonnum sem hefur verið úthlutað síðustu ár og sveitarfélagið hefur fengið undanþágu og fellt niður vinnsluskildu svo sjómenn hafa geta selt þetta á markaðsverði þá hefðum við verið að fá ca 13,5 milljónir ári sem hefði getað nýst vel i innviða uppbyggingu hér í sveitarfélaginu.

Mín ósk hefur verið og er enn að heimamenn og eitthvað fyrirtæki í þessu tilfelli Stakkavík geti samið og opnað hér stóra vinnslu.

Svona er áætlunin (sjá neðar) sem Stakkvík sendi og þess má geta að hún er ekki trúnaðarmál heldur fékk ég hana senda frá þeim í Stakkavík þar sem ég hringdi í þá og spurði bara hreinlega hvort þeir gætu sent mér á tölvupósti það sama og þeir sendu á byggðarstofnun og sveitarfélaginu og hvort ég mætti sýna það, ekkert mál var svarið og einnig nefndi hann að hver sem er mætti hringja og fá upplýsingar um þetta enda ekkert leyndarmál í þeirra áætlun. Húsið þeirra er ónýtt og bátarnir mikið á veiðum við norðurlandið svo þeir hafi hugsað að það væri ekkert mál að landa og vinna fiskinn á Hólmavík þó svo þeir þyrftu stundum að kaupa á markaði eða fá sendann fisk að sunnan þegar veiðin væri lítil hér. Síðan nefndi hann að ef allt hefði gengið að óskum hefðu þeir bara bætt í og farið jafnvel í 5000 tonna vinnslu, en að sjálfsögðu eins og hann orðaði það gæti þetta ekki stækkað meira heldur en starfsfólkið byði uppá og það eru ekki mikið um húsnæði í boði og það tekur smá tíma að byggja hús eða íbúðir, en markmiðið er alltaf að gera hér alvöru vinnslu. Til gamans kynnti ég mér einnig hvað Stakkavík hefur verið að styrkja félögin í heimabyggð er einungis kominn með upplýsingar um knattspyrnufélagið, þar sem styrkt var um 6 milljónir 2023 og 15 milljónir 2024.

Áætlun Stakkavíkur

Sæl öll,

Hérna koma smá hugmyndir frá okkur.

Þar sem fiskvinnsluhús Stakkavíkur er ónýtt erum við Hermann klárir í að hefja útgerð, vinnslu og sölu á fiskafurðum á Hólmavík. Til þess að veiða þessi 500 tonn af byggðarkvóta fyrir 1. september 2024 þarf að hafa hraðar hendur og byrja strax. Hér að neðan eru útskýringar á því hvernig við sjáum þetta fyrir okkur.

Tímabil:

1. apríl 2024 til 31. ágúst 2024. (5 mánuðir) Ca. 100 vinnsludagar.

500 tonn af byggðarkvóta (ca. 600 tonn ósl.)

150 tonn af eigin kvóta (ca. 200 tonn ósl.) Veitt á stokka og bala.

Samtals væri útgerðin þá að sækja um 800 tonn ósl.

Við myndum svo líklega senda meira af fiski til vinnslu á Hólmavík til að styrkja vinnsluna.

Útgerð:

Til að sækja þessi 800 tonn þarf 2-3 báta eftir tíðarfari. Við byrjum á að koma með 2-3 báta og ef við þurfum fleiri báta komum við með þá til að klára að sækja kvótann fyrir 1. sept.

Áætlað er að byrja með Hópsnes GK-77 (2457), Geirfugl GK-66 (2500) og Gulltopp GK-24 (2615) á staðnum. Á þessa báta þarf samtals 8 sjómenn og 3-4 í landi að stokka upp og beita. Ef við sjáum að þörf er á fleiri bátum erum við t.d. með Katrín GK-266 líka klára í verkefnið ásamt fleiri bátum. Óli á Stað GK-99 (2842) mun vera á Siglufirði að veiða heimildir Stakkavíkur og ef þarf getum við fengið fisk af þeim bát til vinnslunnar eftir þörfum. Hugmyndin er samt að reyna að semja við heimamenn til þess að fá þá í lið með okkur. T.d. væri mjög gott ef Hlökk ST 66 (2696) gæti veitt eitthvað fyrir okkur. En við erum ekki búnir að semja neitt við þá að svo stöddu.

Fiskvinnslan:

Fiskurinn verður slægður og flokkaður í stærðir. Hausaður og flakaður. Flök seld með roði og beini til að byrja með.

800 tonn á þessa 100 vinnsludaga eru þá 8 tonn á dag. Til þess að vinna þessi 8 tonn þarf um 6-7 í verkunina til að byrja með. Best er að kaupa auka hráefni af Stakkavík eða af markaði til að vinna um 1.000 tonn á þessu tímabili sem þýðir um 10 tonn á dag. Við erum með allar vélar tilbúnar til vinnslunnar. Eina sem okkur vantar er að semja um húsið og þá getum við byrjað. Síðan er ætlunin að setja upp snyrtingu og jafnvel skurðarvél en það þarf aðeins meiri tíma til þess að gera það klárt.

Okkar hugsun er að semja við heimamenn á öllum sviðum eins og hægt er. Við vonumst einnig eftir því að flutningafyrirtækið á Hólmavík, Strandafrakt, geti þjónustað okkur með flutninga á fiski og afurðum.

Salan:

Við erum með sölu á öllum þessum fiski til okkar kúnna í Belgíu, UK og í Boston.

Ólafur og Hermann

Þetta er s.s. það eina sem ég hef séð af umsóknum þó ég hafi heyrt um aðrar en ekkert séð um hvað þær snúast, svo ég get auðvitað ekkert sagt til um það hvort einhverjir aðrir séu með fullgildar umsóknir í ferli, en óskandi fyrir okkur að svo sé því alltaf finnst mér þetta koma niður á sama stað það eru hagsmunir okkar allra hér í sveitarfélaginu, og trúi ég því að þeim sem verða treyst fyrir þessu verkefni hvort sem það er Stakkavík eða aðrir hafi sömu hugsun og ég að þetta eru hagsmunir allra í sveitarfélaginu.

Ekkert af því sem er skrifað hér er trúnaðarmál. Í mínum huga finnst mér þetta mikið tækifæri og skammast mín ekkert fyrir að hafa hvatt þá, þ.e. Stakkavíkur menn til þess að reyna ná samningum við heimamenn eða aðra, því ég vildi alls ekki missa af þessum 500 tonnum ásamt því sem átti að landa hér til viðbótar til þess að halda vinnslu gangandi allt árið. Ég vona svo innilega að við getum unnið saman og náð þessu til okkar næstu ár og byggt upp samfélagið. Og ég vill endilega taka það fram aftur, að ég myndi aldrei vinna á móti heimamönnum enda á ég marga góða vini og kunningja hér á Hólmavík sjómenn, útgerðarmenn og aðra. Svona stórt mál snertir okkur öll sem viljum að Strandabyggð dafni því hvergi er betra að búa.

Virðingafyllst.

Sigurður Þorvaldsson

11.03.2024 20:11

10.03 2024

 

06.03.2024 18:32

Fínasta vður á Ströndum.

 

  • 1