30.08.2007 22:49
Ekki lýgur mogginn.
Úthýst á Laugarhóli.
Frá Þórgunnu Þórarinsdóttur, Margréti Stefánsdóttur og Elínborgu Lárusdóttur: "Á LEIÐINNI til Hornstranda frá Reykjavík komum við nokkrar miðaldra konur að Laugarhóli í Strandasýslu um miðnætti eina sumarnótt eftir að hafa ekið beint úr bænum." Á LEIÐINNI til Hornstranda frá Reykjavík komum við nokkrar miðaldra konur að Laugarhóli í Strandasýslu um miðnætti eina sumarnótt eftir að hafa ekið beint úr bænum. Örþreyttar eftir langa keyrslu en fullar tilhlökkunar því að við vorum á leið til Hornstranda í sumarfrí. Stórt og uppljómað hús með sundlaug við hliðina tók vel á móti okkur. Yndisleg íslensk sveit, falleg náttúra, björt en svöl sumarnótt. Við bönkuðum fullar af bjartsýni um gistingu á góðum stað. Enginn svaraði svo við gengum inn auða og breiða ganga og hol með stafla af dýnum en hvergi var neinn sjáanlegur. Loks kom vertinn, sem reyndist franskur maður, fram og spurði hvað við vildum, með miklum ólundarsvip. Þegar við útskýrðum að við værum að leita að gistingu svaraði hann æstur. "Stelpur! Hvernig dettur ykkur í hug að koma hingað án þess að hringja á undan ykkur? Hér er allt fullt." Hann vísaði okkur á dyrnar með ákveðinni handarsveiflu. Við sögðum honum sögu okkar og spurðum hvort við gætum ekki fengið að liggja á dýnum í holinu eða í sundlaugarhúsinu. Okkur hefði seinkað af ýmsum ástæðum en hefðum heyrt að hér væri hægt að fá gistingu. " Uss, stelpur, hvernig dettur ykkur slíkt í hug, án þess að panta. Ég sagði, að það væri allt fullt hérna og út með ykkur!" "En dýnurnar? Okkur er sama þótt við liggjum í holinu?" spurðu stelpurnar. "Út, út," var svarið og því fylgdi enn ákveðnari handasveifla í átt að dyrunum. Við stóðum úti í kuldanum um hánótt og horfðum hissa á hver aðra. Hvað var nú þetta? Ekki einu sinni "því miður" eða "ég skal reyna að athuga hvað ég get gert". Bara reknar á dyr einsog óþekkar skólastelpur. Við komumst sem betur fer í Djúpuvík stuttu síðar. Á hótelinu var okkur sérlega vel tekið og fólkið þar ekkert nema elskulegheitin einsog víðar á okkar ferðalagi. Við mættum ótrúlegri gestrisni og hjálpsemi og því stakk þessi reynsla í Laugarhóli í stúf við allt annað. Víða í ferðinni hittum við fólk sem hafði svipaða sögu að segja af dónaskap rekstraraðilans á Laugarhóli. Okkur var tjáð, að hann hefði nýlega komið í þættinum Út og suður (ein af okkur gat ekki á sér setið og sagði að hann ætti betur heima í norður og niður) og fengið þar góða umfjöllun, enda styrktur af sjálfu sveitarfélaginu. Við viljum því með þessari grein segja frá okkar reynslu af umræddum hótelstjóra og vara ferðalanga við. Ennfremur að benda á að það er nóg af frábærum gistimöguleikum á Íslandi og góðu fólki með ríka þjónustulund í ferðaþjónustunni svo að alger óþarfi er að sætta sig við dónaskap og ólund þegar þjónustu er leitað.
Heimild mbl.is 26 ágúst blaðsíða 39 á mbl 2007.