Færslur: 2022 Október

30.10.2022 19:54

Um helgina.

 

30.10.2022 19:25

Kokkálsvíkurhöfn.

 

16.10.2022 19:37

Við Grænanes.

 

10.10.2022 02:28

NONNI FRÁ BERGINU FER YFIR FARIN VEG.

„Og þetta er engin lygi!“  Viðtal við Nonna frá Berginu um allt og ekki neitt. Sveitin mín og útivist og ekki síst ljósmyndun.

1 október, 2022

Jón og nokkrar myndavélar. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Jón Halldórsson – Jón póstur, Nonni á Berginu – er borinn og barnfæddur Strandamaður, landpóstur, tónlistarmaður, göngugarpur, náttúruunnandi og ljósmyndari með meiru. Hann er þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum en þekkastur, jafnvel alræmdur, er hann fyrir ljósmyndirnar sínar sem hann er duglegur að birta á veraldarvefnum. Fréttararitari kíkti í spjall til Jóns til að forvitnast um starfsferil hans og áhugamál.

Heima hjá Jóni á Hólmavík, tekur læðan Fröken Þuríður mjálmandi á móti fréttaritara. Tæknilega er hún í eigu Heklu, dóttur Jóns sem er flutt frá Hólmavík, en kisa virðist una sér vel hjá ‚afa‘ sínum. Aðspurður hvort hann sé mikill kattakarl segir Jón:

„Ég ólst upp með mörgum köttum heima á Hrófbergi. Mest voru 28 kettir og allur hópurinn fylgdi mömmu þegar hún var að fara upp á fjall að tína ber. Geturðu hugsað þér? Og svo komu hundarnir á eftir, allt í halarófu. En það er ágætt að hafa 1 kött en ekki 28, það þurfti líka að lóga þeim, annað var ekki í boði.“

Fröken Þuríður. Mynd: Jón Halldórsson

Barnæskan á Hrófbergi

Jón Halldórsson er fæddur árið 1955 og alinn upp á Hrófbergi við Steingrímsfjörð, yngstur af sjö (fimm núlifandi) börnum Halldórs Halldórssonar og Svövu Pétursdóttur. Þrátt fyrir eigin frægð, vildi Jón taka fram að frægastur systkinanna væri bróðir hans Hreinn en hann er frækinn afreksíþróttamaður og hvað þekktastur fyrir afrek sín í kúluvarpi.

Jón er sjálfur mikill göngumaður en segist þó hafa verið duglegri á yngri árum í uppvextinum, enda lítið annað í boði en að fara ferða sinna á tveimur jafnfljótum til að sinna skylduverkunum.

„Við í sveitinni heima vorum alin upp við það að sitja hjá fé á vorin, og það kom í okkar hlut sem vorum yngst, ég og Ragna systir sem er nýflutt héðan frá Hólmavík. Maður var látinn fara í heyskap, ná í beljurnar, svo þegar var búið að því, var hlaupið bara með 1 stk stöng upp að Hrófbergsvatni og maður veiddi svona 10, 15, 20 bleikjur eða meira bara á 1 og hálfum tíma, aftur hlaupið heim en núna nennir enginn að labba eitt eða neitt. Þess vegna á ég dróna .“

Jón gekk í barnaskóla á Laugarhóli í Bjarnarfirði en hefur fátt gott að segja um þá skólagöngu.

„Ég gekk í skóla – vondan skóla, skal ég segja þér – á Laugarhóli, hræðilega vondur. Ég læt það flakka, kennarinn var alltof kvensamur. Þó ég segi ekki meira um hann.“

Jón ungur að árum í fjörunni við Hrófberg. Mynd: Aðsend

Vegavinna og vörubílar

Jón hóf ungur störf við vegavinnu og tók síðan meirapróf 19 ára gamall og fór að keyra flutningabíla en segir kaupfélögin hafa leikið sig grátt á þeim ferli.

„Mín fyrsta vinna var hjá RARIK, bara með skóflu. Ég var þar 1 sumar, á 15. ári. Síðan fór ég sem tippari í Vegagerðina, með skóflu. Við unnum saman, ég og Jói Skúla, báðir með skóflu. Semsagt, það komu vörubílar með hlass, og við urðum að jafna úr því, á götuna eða einhvern vegakafla. Malbik var ekki til þá. Þetta er ‘72 sennilega. Það var svo ógurlega gaman að vinna þá, þó maður væri bara með skóflu, með þessum fínu mönnum þarna, sérstaklega Jóa Skúla. Ég tók meiraprófið 19 ára, við sátum saman, ég og Kristján Guðmundsson frá Stakkanesi og hann er ennþá að aka þessa bíla. Svo fór ég að gera þetta líka og var á veginum í þónokkuð mörg ár með mína bíla, þangað til mafían yfirtók allt. Hvað er mafía? Það eru kaupfélögin, og aðalmafíustjórinn er á Sauðárkróki, En hún er líka hér á Hólmavík. Ég keypti mér vörubíl, Volvo 16 bíl, keypti svo á hann fjárflutningakassa frá Kópaskeri eða einhvers staðar þaðan, og setti hann á, lengdi hann bæði aftan á og fram, þannig ég kom á hann 325 lömbum meðan mafían hér var með kannski 70-90 á hvern bíl. En ég fékk ekki einu sinni að aka einu lambi héðan, aftur á móti var ég beðinn um að keyra frá Patreksfirði og Arnarfirði suður í Búðardal, ég ók öllu fénu þaðan og gekk bara ljómandi vel.“

Jón við vörubílinn sinn árið 1977. Mynd: Aðsend

Veiðar á landi og sjó

Einnig er Jón mikill skytta, ekki aðeins á myndavélina, því hann var atvinnuveiðimaður í fjölda ára.

„Ég hef alla tíð verið mikill veiðikarl, bæði á rjúpu og ref. Var atvinnumaður á rjúpu í yfir 30 ár þangað til það var búið til félag, Skotveiðifélag Íslands, Skotvís, það skemmdi allt saman. Þetta var bara sport, veiðisport. Að hver maður ætti ekki að vera með einhverja magnveiði, þeir kölluðu mig magnveiðimann. Ég hef einu sinni fengið ágæta veiði, 179 minnir mig, það var í enda nóvember ‘84. Indriði á Skjaldfönn, hann fékk þennan sama dag 199, svo fór hann daginn eftir, hann fann eina dauða og fékk þá 200.“

Inntur eftir því hvort ekki séu gildar ástæður til að takmarka veiðina, hefur Jón svar á reiðum höndum:

„Þeir fatta það ekki að rjúpan hefur vængi, hún á ekkert meira heima hér en annars staðar. Eins og ‘84, ég var farinn að sjá að það voru þarna rjúpur sem voru öðru vísi en okkar, lappirnar loðnari og þær meiri. Ég skaut 30 rjúpur fyrir aðila sem var að rannsaka þetta og það kom í ljós að 14 af þessum 30, voru ekki frá okkar landi, heldur Grænlandi takk! Og þetta er engin lygi!“

Jón segir rjúpnaveiðina hafa verið ábatasama vinnu en rjúpurnar voru seldar suður til Reykjavíkur. „Það hét Kjötbúð Péturs held ég, það keypti eiginlega allt sem ég skaut og þetta var mjög gott kaup. Á endanum var verðið á henni komið yfir 2000 kall, margfaldaðu það nú með 177.“

Rjúpur. Mynd: Jón Halldórsson

Einnig segist Jón hafa reynt að gerast sjómaður en það átti ekki við hann.

„Um ‘83 eða ‘84 þá gerði ég heiðarlega tilraun til að verða ríkur á sjó, fór á sjó með elskulegum mági mínum Frigga, og ég hef aldrei séð eins mikið af peningum og þá en ég bara ældi þeim öllum. Ég gat ekki farið ofan í lúkar, það var alveg hræðilegt. En þetta er ógurlega gaman í góðu veðri.“

Bátur, ótengdur hásetaferli Jóns. Mynd: Jón Halldórsson

Póstur í öllum veðrum

Jón gerðist síðan landpóstur árið 2000 í verktakavinnu fyrir Íslandspóst og segir margt hafa breyst síðan. Nú sé meira um pakkasendingar heldur en bréf og færri ferðir farnar yfir vikuna. Auk þess hafi orðið miklar breytingar á vegamálum.

„Þegar ég byrjaði þá var allt á kafi í fönn og það voru fáir sem voru með einhverja alvöru jeppa í þessu en ég keypti mér bæði jeppa og sleða en það var oft helvíti strembið á þessum tíma og þó allt öðruvísi. Það er náttúrulega búið að laga marga vegi en Bjarnarfjarðarhálsinn, hann er þeim sem hönnuðu þennan veg til háborinnar skammar. Og leiðin frá Stakkanesi og út fyrir Bassastaði er oft mjög slæm. Það er oft mjög blint á þessum melum, maður hefur oft lent í bölvuðum leiðindum, það er engin spurning.“

Snjóþyngsli. Mynd: Jón Halldórsson

Póstsvæði Jóns liggur frá Hólmavík norður í Bjarnarfjörð og suður í Kollafjörð en einnig kemur það fyrir að hann fari stakar ferðir í Reykhólahrepp eða á Gjögur þegar ekki er flogið þangað. Hann segir það mikilvægasta eiginleikann í starfinu að vera ekki veðurhræddur og að það hafi hann aldrei verið.

„Það hafa margir spurt mig hvort ég sé ekki að fara út í einhverja vitleysu en ég hef alltaf farið það sem ég ætla að fara. Bara sem lítið dæmi – ef við förum örlítið lengra aftur í tímann – ‘73, þá er ég búinn að kaupa mér snjósleða nr. 1, það var búið að mugga mikið þennan dag, mjög mikið. ‚Mugga‘ það er þegar fönnin kemur af himnum ofan og beint niður, þetta var hátt í meter og mig vantaði á sleðann bensín og ég ákvað að fara út Hólmavík og ná mér í bensín og ég gerði það og fór í kaffi til Halla á Bakka. Svo þegar ég lít út, þá var svartur bakki að koma inn fjörðinn og ég fer bara beint út, á sleðann og er kominn rétt af stað og þá er komin blindhríð. Ég fer héðan inn að Ósi, það er ekki nema hvað 4-5 km, en ég var ekki kominn þangað fyrr en um 10 um kvöldið. Það héldu allir að ég væri dauður en ég var þar í 2 sólarhringa veðurtepptur. Svo þegar við förum út, þá var allt á kafi, allar símalínur og allt á bólakafi. Það þurfti að moka upp minn sleða. Það voru örugglega 6, 7 metrar ofan á honum. Og þetta er engin lygi!“

Snjósleðinn. Mynd: Jón Halldórsson

Aðspurður gat Jón aðeins rifjað upp 1 atvik þar sem honum fannst hann vera hætt kominn vegna veðurs.

„Það munaði nokkrum sentimetrum á sleða, þá var ég sem oftar að fara lengst upp á heiðar. Þarna var ég vestur á heiði sem heitir Gláma og búið að vera alveg bongó blíða allan daginn. Svo allt í einu kemur skafrenningur og þá er allt orðið blint og ég hef aldrei haft með mér GPS eða neitt þannig, bara minn haus. Og það munaði örfáum tommum að ég færi fram af klettum en þetta slapp. Þetta var í eina sinnið sem ég sá að ég myndi fara fram af og þá var ekkert annað að gera en að gefa í og laggo og þetta var bara ágætt. Maður er allavega ennþá á lífi!“

Strýta og Strandafjöllin. Mynd: Jón Halldórsson

Myndasjúkur frá fermingu

Eins og flestir Strandamenn vita, er Jón afkastamikill ljósmyndari og tekur bæði náttúru- og mannlífsmyndir en það áhugamál byrjaði þegar hann fermdist og hann segist hafa verið myndasjúkur síðan.

„Ég er fermdur ‘69, þá er mér gefin myndavél sem hét Kodak og þetta var bara lítil filmuvél. Á filmunni voru bara 12 myndir, það var lítið og þær voru allar sendar til Hans Petersen suðurfrá og svo hætti hann, þá kom annar til sögunnar, Ástþór Magnússon sem ætlaði að fara í framboð til forseta og hann sendi allar myndirnar út til Englands. Þetta tók oft á tíðum um mánaðartíma en ég er búinn að taka myndir allar götur síðan. Það hafa margir spurt mig, hvað áttu margar myndavélar… það eru allavega 8 hérna, ég er kannski búinn að eiga um 20.“

Jón og foreldrar hans, Svava og Halldór, árið 1975. Mynd: Aðsend

Jón segir það hafa verið byltingu þegar ljósmyndatæknin varð stafræn, sérstaklega fyrir öran og óþolinmóðan karl eins og hann. Hann segist hugsa vandlega út í atriði eins og myndbyggingu sem hann hafi lært af eigin rammleik. Skemmtilegast finnist honum að taka landslagsmyndir.

„Mér finnst allt of mikið inni á þessum netmiðlum, að fólk er alltaf að hrúga inn handónýtum myndum, þó ég segi ekkert hver það er, það vita það allir. Maður bara velur úr… segjum bara ef maður ætlar að taka mynd af báti, eins og ég í gær, flottasta bát hér ST-2. Hann var hérna innan við eyju og aðalmálið var báturinn, og bak við hann er fallegt þorp, Drangsnes, og í forgrunni nær mér, eru lömb. Það er semsé 1, 2, 3. Þannig á þetta að vera.“

ST-2 á Grímsey siglingu, kindur í forgrunni. Mynd: Jón Halldórsson

Flogið um loftin

Jón var ekki seinn á sér þegar drónar urðu aðgengilegir almenningi og var fljótur að tileinka sér þá tækni þrátt fyrir nokkra byrjunarörðugleika.

Hólmavík séð úr lofti. Mynd: Jón Halldórsson

„Þetta eru fyrirbæri sem eru óhemju fín ef þú hefur réttan búnað. Ég byrjaði með kolvitlausan búnað, ég notaði bara handónýtan síma sem var alltaf að detta út og ég tapaði tveimur slíkum drónum. Þegar síminn deyr, frýs, þá bara er dróninn farinn eitthvað. Síðan er ég búinn að fá mér svona spjaldtölvu, það er allt, allt annað, ég get alveg farið yfir fjörð og hvaðeina. Ég er m.a.s. búinn að fara alveg út að eyjunni en ég varð hræddur og hann rétt náði til baka. Þetta er alltaf heppni. En bara myndataka á svona apparati, þær eru svo tærar, þetta eru mun betri myndir en á almennilegri myndavél. En maður getur ekki notað apparatið ef það er einhver vindur og alls ekki á þeim tíma sem er varp, þá kemur spóinn og gnýfer í hann og… hann reyndar datt niður steindauður spóinn og dróninn kom heim alblóðugur. Þetta er leiðinlegt, þetta skeði í Bjarnarfirði.”

Spói. Mynd: Jón Halldórsson

Jón segir drónahobbíið ekki síst til komið vegna flugáhuga síns en á yngri árum hafði hann hug á að gerast flugmaður.

„Ég var nokkra mánuði í Reykjavík að nema flug, af því er ég með þennan dróna. Ég er með þessa flugmannsbakteríu, og hún er tilkomin út af því að maður hérna frá Ósi, Þórólfur Magnússon, hann var flugmaður hjá Arnarflugi, og síðar hjá Vængjum, og ég fór margar, margar ferðir með honum héðan, þegar Arnarflug var, norður á Gjögur, og aftur hingað á Hólmavík, eða frá Hólmavík og suður og aftur hingað, ég þurfti aldrei að borga krónu, við höfum alltaf verið vinir. Mér þykir ógurlega skemmtilegt núna, nú er kominn nýr maður úr þessari ætt, sem er að verða líka flugmaður, frá Ósi. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en fyrir mánuði, þá var bjart veður, alveg óhemju gott um þetta kvöld, og ég lít út, heyri í flugvél, þá er ungi maðurinn sem er að læra, hann hallar vélinni og ég hleyp út, og mynda hann, hann var bara nokkra metra frá mér.“

Flugmannsferillinn tókst þó aldrei á loft þar sem reglur sögðu til um að flugmenn yrðu að kunna 4 tungumál sem Jón segir ekki vera sína sterku hlið. Dróninn verði því að duga.

Flugvél að lenda á Hólmavíkurflugvelli. Mynd: Jón Halldórsson

Dularfullt mál í Djúpavík

Myndir Jóns hafa farið víða og stundum valdið fjaðrafoki. Umtöluðustu atvikin voru eflaust þegar hann ákvað að kanna mannaferðir í Djúpavík, og síðan þegar hann smellti af mynd af fólki sem kom á snekkju til Hólmavíkur.

„Ég verð að segja það, ég er svolítið forvitinn, ég leyni því ekki neitt sem er bara gott. Smá dæmi, fyrir nokkrum árum, ekki mörgum, ég var með póstinn norður í Bjarnarfirði, þar sá ég fullt af alls konar bílum, húsbílum og öðru, örugglega hundrað, ‚hver djöfullinn er að ske?‘ og ég smelli af einni mynd inn um gluggann á Laugarhóli, ‚já, ég hef séð þennan í sjónvarpinu.‘ Hann sat við gluggann og ég hélt áfram mína ferð. Svo sá ég hérna alveg fullt af bílum, þegar ég kom hérna inn eftir, þá var alveg halarófan að fara yfir hálsinn. Ég fer svo norður í fjörð, allir bílarnir voru farnir en þarna voru komnar 4 þyrlur, rauðar og svartar. Þá varð ég meira forvitinn og ég fór norður í Djúpavík, hvað sá ég þá? Allt fullt af bílum, húsbílum og öllu, og alveg inn í Kjós. Ég fór til baka, fór upp á hjallann fyrir ofan Djúpavík í ausandi rigningu, var þar á fjórum fótum í langan tíma og náði að mynda liðið beint fyrir neðan fossinn.“

Djúpavík. Mynd: Jón Halldórsson

Um var að ræða myndir af töku-og leikaraliði ofurhetjumyndarinnar Justice League, sem var tekin upp að hluta í Djúpavík. Myndirnar setti Jón síðan á vefsíðuna sína þar sem fjölmiðlar eru fastagestir og fóru myndirnar í dreifingu vítt og breitt, við lítinn fögnuð aðstandenda kvikmyndarinnar.

Fékk smá pening

„Ég fékk símtal um hálf 12 leytið um kvöldið frá vini mínum, og hann var langan tíma að koma sér að efninu. Svo þegar hann gerði það, þá sagði hann ‚Nonni, viltu vera svo vænn elskulegur frændi að taka þetta út af netinu sem þú settir inn áðan?‘ Ég sagði að það myndi ekki koma til mála nema þá að ég myndi fá einhverja þóknun fyrir að taka þetta út. Þá hafði samband við mig stuttu síðar lögmannstofa í Lágmúla 5. 5 lögmenn settir á mig og ég sagði þeim að þetta myndi ekkert fara út, þetta væri komið á Mbl og BBC, út um allan heim en ég sagði að ég skyldi athuga það með þeim fyrirvara að þeir myndu borga mér fyrir að taka þetta út og þá var sagt ‚já‘ það myndi vera lagt inn á mig í tveimur greiðslum. Þegar ég var búinn að sjá það, það kom rétt fyrir 12 um kvöldið, þá hafði ég samband við vini mína á Mbl, hann hafði samband við BBC, þessu var öllu eytt út nema ég á þetta ennþá hjá mér og ég fékk smá pening.“

Hólmavíkurh
öfn. Mynd: Jón Halldórsson

Aðspurður hvort honum finnist þetta ekki jaðra við mútugreiðslur, segir Jón svo ekki vera heldur snúist það fremur um lifibrauð.

„Ég er einmitt að biðja um þetta af því ég ætla að reyna að lifa á þessu að vera myndasmiður. En ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var. Ekki batnaði það svo fyrir þremur árum, þá fékk ég líka smá pening. Hingað kom ein snekkja, lá hérna. Ég opna bara hérna út og mynda hana, svo fer ég niður eftir, fyrir neðan galdrasafnið. Er þar í smá tíma að mynda þetta fólk. Já, svo sá ég… ‚ég hef séð þessa í sjónvarpinu‘. Þetta er þessi sem gerði bækurnar um Harry Potter. Og þá var líka hringt í mig frá þessari lögmannsstofu í Lágmúla 5 og ég fékk pening þar,“ segir Jón hlæjandi og bætir við að þessi uppátæki hafi skilað honum um 2 milljónum króna inn á bankareikninginn svo hann hafi tekið út umræddar myndir í sátt.

„Þetta ágæta fólk vill bara ljúka þessu. ‚Við borgum, þá heldur þú kjafti.‘ Og þannig er það.“

Mannlegur en forvitinn

Jón segir að það sem aðgreini hann frá papparazzi-ljósmyndurum erlendis, sé að ólíkt þeim sem elta vísvitandi uppi frægt fólk til að mynda, sé hann mest að gera það fyrir slysni eða heppni.

„Ég fékk að heyra það að ég væri orðinn áhrifavaldur, eða eins og papparazzi en hjá mér er þetta bara óvart! Ég hafði ekki hugmynd um þetta að þarna væri einhver ógurlega rík kona um borð, hún þarna Rowling. Ég hafði ekki hugmynd um það. Ég sá bara mann alveg eins og Paul Watson – óvinur okkar allra Íslendinga, hann setti 2 hvalveiðibáta á kaf í Hvalfirði. En svo var það ekki Paul Watson. En hún var með.“

Hvalur fyrir framan Grímsey. Mynd: Jón Halldórsson

En á allt erindi við almenning eða er eitthvað sem hann veigrar sér við að birta?

„Já, já, sko MBL, Vísir, DV, Fréttablaðið, þeir skoða allt sem ég set inn hjá mér. Ég set aldrei inn ef það er eitthvað alvarlegt, það geri ég ekki. Ég tel mig vera mannlegan… en mjög forvitinn.“

Hopp og hí um borg og bý

Samhliða ljósmynduninni er Jón mikill göngugarpur, enda erfitt að taka góðar landslagsmyndir úr sófanum heima. Jón hefur farið um fjöll og firnindi, bæði fótgangandi, akandi og á snjósleða, helst í þeim tilgangi að ná flottum myndum. Þegar fréttaritari hitti á hann var hann einmitt nýlega búinn að skoða eldgosið í Merardölum.

„Ég fór reyndar í fyrra 4 sinnum. Núna var ég var ég búinn að steingleyma hvað þetta væri langt og þetta var mun lengra en það var í fyrra, þannig karlgreyið var eiginlega bara búinn í skrokknum. Landið er allt öðruvísi heldur en hér, þetta er urð og grjót. Allavega er ég ekki vanur að labba í urð og grjóti, nema upp á Lambatind.“ 

Gosið í Merardölum. Mynd: Jón Halldórsson

Honum líkar best að fara um sitt heimasvæði og þekkir orðið Strandafjöllin býsna vel en Lambatindur er í sérstöku uppáhaldi hjá honum vegna útsýnisins.

„Besta leiðin upp á Lambatind er að fara upp hjá gilinu við Kaldbak. Ég er búinn að fara þangað 9 sinnum og ég á eftir að fara 1 ferð í viðbót, 10. Ég ætlaði í fyrra, reyndi þá, en þá gerði þoku og núna aftur, bölvuð leiðindi. Svo er ég búinn að fara upp á Örkina, Kálfatinda, margoft upp á Háafellið, ég held bara eiginlega öll fjöll hérna á mínu svæði. En Lambatindurinn er í minni heimabyggð, hann er gefandi. Maður sér út um allt, yfir allan Húnaflóann, inn í Hrútafjörð og yfir á Eiríksjökul, Langjökul, Snæfellsjökul, Vesturland og alla Vestfirði eins og leggur sig og norður að Horni.“

Frá Lambatindi. Mynd: Jón Halldórsson

Hann hefur farið víðar, m.a. þrisvar sinnum á Snæfellsjökul sem honum fannst frekar krefjandi.

„Hann er miklu, miklu fallegri en ég hélt, mjög mjög fallegur. En þetta er miklu lengra heldur en ég hélt, að fara þarna upp. Maður er ekki alltaf í góðri þjálfun, samt er ég í ágætri þjálfun en ég fékk óhemju gott veður í ferð númer 3. Það var alveg steikjandi sól og ég var svo vitlaus að fara úr að ofan, ég skaðbrann.“

Jón á Snæfellsjökli. Mynd: Jón Halldórsson

Tónelskur Jón

Einnig má þess geta að Jón er mikill tónlistarmaður, enda alinn upp á músíkölsku heimili. 

„Ég er búinn að spila í áratugi. Ég lét verða af því fyrir nokkrum árum að gefa út disk og það hafa þónokkuð mörg lög verið spiluð á Bylgjunni og Rás 2. Ég er fæddur og uppalinn með músík í eyrunum. Ég á gamalt fótstigið orgel heima, svo keypti ég mér síðar Hammond orgel tveggja borða en það var alltof þungt, 350 kíló, svo er ég með svona lítið núna, það gerir miklu meira.“

Einnig hefur Jón haldið tónleika og flutt tónlist við ýmis tilefni svo honum er greinilega margt til lista lagt.

Ást í gegnum linsuna

Ekki er oforðum sagt að ljósmyndirnar hafi spilað stórt hlutverk í lífi Jóns en að sjálfsögðu fann hann ástina vegna myndar sem hann tók og varð þess valdandi að hann kynntist konu sinni, Kristínu Jónu Sigurðardóttur.

„Okkar samband var óvænt, ég má alveg segja það hvernig þetta var. Það var mýrarboltinn á Ísafirði, ég labbaði til konu sem ég er búinn að þekkja lengi og hún á systur sem er vinkona hennar Stínu minnar, og ég var að taka myndir og tek myndir af þessum konum, og set inn hjá mér og það var skoðað, þá var þetta komið.“

Mýrarboltinn á Ísafirði. Mynd: Jón Halldórsson

Ekki nóg með það, heldur hafi honum tekist að smita kærustuna af ljósmyndadellunni og þau skötuhjúin fari oft saman út með myndavélarnar á lofti. Jón á annars 2 börn frá fyrra sambandi, og einnig 2 barnabörn (að ógleymdum kettinum Þuríði) og sé því orðinn ‚gamall afi‘ þrátt fyrir að vera við hestaheilsu. Hann segist þó örlítið vera farinn að finna ellimerki og hyggst nota myndirnar sínar til að drýgja ellilífeyrinn.

Jón og Stína. Mynd: Jón Halldórsson

„Ég á nú ekki mörg ár eftir sem póstur, það er alveg á hreinu en ég ætla mér að lifa svona smá á þessu. Ég hef verið svo heppinn að vera góður í löppunum en ég er nú aðeins farinn að finna til í annarri löppinni. Það er út af því að ég var nærri dauður ‘84, ég var á beltabor að bora í klappir. Það var komin smá ísing og ég var að færa borinn í smá hliðarhalla rétt við loftpressuna sem var tengd við borinn þegar mér skrikar fótur rétt við pressuna og ég klemmdist á milli borsins og pressunnar. En ég var með mann með mér sem heitir Loftur Steingrímsson frá Stað í Steingrímsfirði sem er minn lífgjafi, ásamt sprengisérfræðingnum frá Færeyjum sem heitir Klemens. Sumsé ég var sendur suður með sjúkraflugi með flugvél frá Örnum Ísafirði og ég var 14 daga inni á Borgarspítala með 7 brotin rif og blóð bak við hjartað. Mér var sagt það af læknum að ef blóð er sýnilegt bak við hjartað þá er yfirleitt viðkomandi dáinn, þannig að ég er eins og Jesú upprisinn! En þetta gerði það að verkum að það er klemmd taug í bakinu, sem leiðir ofan í löppina.“

Börn Jóns í æsku, Hekla og Valdimar. Mynd: Jón Halldórsson

Að skapa fyrir aðra

Jón er þó ekki alveg hættur með póstinn þrátt fyrir að 67. afmælisdagurinn nálgist, þann 8. desember. Ásamt því að halda áfram póststörfunum hyggst hana halda áfram að taka myndir, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

„Þeir hjá Íslandspósti vildu endilega hafa mig í 2 ár í viðbót, þannig ég verð allavega 2 ár í viðbót til ‘24, kannski lengur, ég veit ekkert um það. Það er svosem ekkert merkilegt á döfinni, ég ætla bara að halda áfram að reyna að skapa eitthvað. Ég ætla ekki að segja að ég sé eins og Guð, guð skapaði heiminnn, en ég reyni að feta í hans spor, að skapa fyrir hina. Að ná góðum myndum er ekki öllum gefið en ég hef verið mjög heppinn. Megnið af fólkinu sem er skoða þetta hjá mér er að þakka mér fyrir þetta.“

Jón á Kálfatindi. Mynd: Jón Halldórsson

Myndir Jóns má sjá á heimasíðum hans hér og hér og á Facebook.

03.10.2022 23:08

Í dag 03.10 - 2022

 

  • 1