Færslur: 2021 Apríl

29.04.2021 22:04

100% Mánin fullur.



25.04.2021 20:43

Borðeyri....








23.04.2021 08:08

Sveitastjóra Strandabyggðar sagt upp - ástæðan er skrítin sem fáir skilja nema JJ og JGJ


Kæru íbúar Strandabyggðar,

Eins og flestum ykkar er án efa kunnugt, ákvað sveitarstjórn Strandabyggðar í gær, 20. apríl 2021 að nú skildu leiðir skilja. Var óskað eftir fundi um starfslok. Þau starfslok sem fulltrúi sveitarstjórnar Strandabyggðar bauð mér voru óásættanleg af minni hálfu. Það lá því fyrir að annað hvort myndi ég segja upp eða að mér yrði sagt upp. Ég sá enga ástæðu til að segja upp, bæði þar sem ég hafði ekkert annað gert en að framfylgja mínum skyldum og hlutverki sem sveitarstjóri en aðallega því ég hafði ekki nokkurn áhuga á að hlaupa frá þeim fjölmörgu ókláruðu verkefnum sem ég bar ábyrgð á og vildi sjá til lykta leidd. Niðurstaðan varð því ofangreind. Ég mun íhuga alvarlega að taka málið lengra og skoða réttarstöðu mína.

Þessi ákvörðun sveitarstjórnar kom mér á óvart, ég verð að viðurkenna það. Vissulega hefur okkur greint á í vissum málum og þá fyrst og fremst málum sem snúa að hagsmunagæslu sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna, óheppilegum og óæskilegum tengingum þeirra við styrkúthlutanir og aðra ráðstöfun fjármagns eða eigna sveitarfélagsins. Mér hafa þótt sumar þessara ákvarðana stangast á við sveitarstjórnarlög, samþykktir Strandabyggðar og siðareglur Strandabyggðar.

Í sveitarstjórnarlögunum, VI kafla um framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn sveitarfélaga, segir um hlutverk framkvæmdastjóra: 

"55. gr.

Hlutverk framkvæmdastjóra.
Framkvæmdastjóri er æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins. Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna
."

(Undirstrikun er mín)

Ég hef gagnrýnt sveitarstjórn þegar mér hefur þótt hún hafa farið á skjön við m.a. þessa grein. 
Ég hef haft skoðanir á ákvörðunum og embættisfærslum sem varða fjármuni og eignir sveitarfélagsins. Það er mitt hlutverk og mín skylda, um það á kjörnum fulltrúum að vera kunnugt.

Gagnrýni mín á styrkveitingum til stofnanna sem tengjast einstaka sveitarstjórnarfulltrúum kemur til  bæði vegna hagsmunatengsla en líka og ekki síður vegna bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Eðli máls samkvæmt eiga heildarhagsmunir sveitarfélagsins alltaf að koma framar sérhagsmunum. Að mínu viti hefur sveitarfélagið Strandabyggð ekki efni á að veita neina styrki árið 2021. Sveitarstjórn var á öðru máli.

Ég hef gagnrýnt einstök verkefni eins og smíði á rampi utan á íþróttamiðstöð vegna mikils byggingarkostnaðar og lítils notagildis sem og verklag varðandi sameiningu grunn-, leik- og tónlistarskóla.  Í báðum tilvikum var mér vikið úr viðkomandi vinnuhópum, að því er virðist, bara vegna skoðanna minna og gagnrýni.

Seinna tilvikið er alvarlegra því þar er "æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins" eins og lögin segja, tekinn úr vinnuhópi um mál sem varðar fjölda starfsmanna. 

Við ræddum það opið, ég og fulltrúar í sveitarstjórn, hvort ekki sé leyfilegt að gagnrýna eða hvort erfitt sé að taka gagnrýni. Mér sýnist að niðurstaðan sé sú að gagnrýni sem þessi sé ekki æskileg af hálfu sveitarstjóra, jafnvel þó það sé hans lagalega hlutverk.

Sveitarstjórn færði engin bein rök fyrir uppsögninni, sagði reyndar að ekki væri sveitarstjóra einum um að kenna. Í tilkynningu sveitarstjórnar segir að "ólík sýn á stjórnun og málefni" hafi valdið því að ekki var grundvöllur fyrir áframhaldi. Mér er því sagt upp og þarf að tæma skrifstofuna fyrir vikulokin. Það er óvægin útreið fyrir litlar útskýrðar sakir. Hafi sveitarstjórn í raun haft áhuga á að bæta samskipti, samvinnu og efla starfsanda, má geta þess, að 31. desember 2019, skrifaði ég sveitarstjórn einlægt bréf, þar sem ég bað um fund til að ræða bætt samskipti, aukna samvinnu, upplýsingaflæði og fleira. Enginn sveitarstjórnarfulltrúi hefur enn svarað þessum pósti, sem segir sitt.

Ég hef frá upphafi lagt allt í þessa vinnu og hún hefur tekið á og oft valdið miklu álagi eðli máls samkvæmt, ekki bara á mig heldur einnig sambýliskonu og fjölskyldu. Mun meira álagi með alvarlegri afleiðingum en flestir vita. Við gerðum okkur einhverja grein fyrir því sem koma skyldi í upphafi ráðningar og héldum okkur vera til í það sem þessu fylgdi en undanfarin ár hafa kostað meira en við áður hugðum.

Alla tíð, í öllum verkum, líka þeim sem ég og sveitarstjórn höfum tekist á um, hef ég unnið samkvæmt hlutverki mínu og með hagsmuni heildarinnar, hagsmuni íbúa Strandabyggðar að leiðarljósi.

Í frétt á ruv.is í dag þar sem greint er frá uppsögninni er um leið sagt frá fjárhagslegum hremmingum Strandabyggðar, sem tengjast mikilli skerðingu á framlögum Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins á árinu 2020. Hafi einhver tengt brottrekstur minn við fjáhagslega stöðu Strandabyggðar, skal það leiðrétt hér með, því þar er engin tenging. Þvert á móti hefur starfsmönnum skrifstofu sveitarfélagsins ítrekað verið hrósað af einstaklingum í stjórnsýslu, ráðgjöf og stoðgreinum sveitarfélagsins fyrir það þor, að hafa kallað strax í júlí í fyrra eftir aðstoð ráðherra og ráðuneytis samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Ég beitti mér ákveðið í þessu máli, leiddi okkar samskipti við ráðuneytið og þeirra sérfræðinga. Samningurinn kveður á um fjárhagslegan stuðning upp á 30 milljónir, en á móti setti ráðuneytið fram kröfur um fjárhagslega greiningu af hálfu sveitarfélagsins. Einnig átti sveitarfélagið að ráða óháðan ráðgjafa til að vinna fjárhagsáætlun fyrir tímabilið 2022-2025 auk þess að gera verk- og aðgerðaráætlanir.  Ég var mjög fylgjandi þessu ákvæði, þar sem ég tel það verulegt tækifæri fyrir Strandabyggð á þessum tímamótum að ná þessum samningi, fá svona ráðgjöf og geta þannig kafað ofan í forsendur fjárhagslegra ákvarðana sveitarstjórnar, meðal annars. Innan sveitarstjórnar var hins vegar ríkjandi það sjónarmið að það væri illt að þurfa að greiða fyrir þessa ráðgjöf af samningsupphæðinni. Í mínum huga var ekki um annað að ræða. Sveitarfélagið væri ekki með þennan samning í dag og hefði ekki fengið þann fjárhagslega stuðning sem það hefur fengið frá því sl. sumar, nema af því við starfsmenn sýndum þor og kölluðum eftir aðstoð.

Ég mun ekki tjá mig um ástæður þessa brottrekstrar umfram þessa yfirlýsingu, né taka þátt í umræðu um einstök mál, verkefni eða gjörðir sveitarstjórnar opinberlega, nema þá í dómsal ef til þess kemur. Núna er mikilvægt að lykilstarfsmenn á skrifstofu sveitarfélagsins og forstöðumenn fái ráðrúm til að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin. Ég vil þakka starfsmönnum Strandabyggðar gott samstarf, frábær kynni og góðar stundir. Þessi þrjú ár hafa verið magnaður tími, sem engin kennslubók nær yfir. Takk fyrir mig og gangi ykkur sem allra best í framhaldinu.

Í þessum skrifum er engin ánægja fyrir mig fólgin og ég er augljóslega ósáttur við þessa ákvörðun sveitarstjórnar. En ég vil engu að síður þakka sveitarstjórnarfólki fyrir þá samvinnu sem við þó náðum á tímabilinu, með ósk um að þau nái nú að lokum utan um þau fjölmörgu fyrirliggjandi verkefni sem bíða þeirra. Einnig vil ég þakka þeim fyrir það tækifæri að fá vinna með starfsmönnum Strandabyggðar að framgangi sveitarfélagsins. Það var mér einstaklega lærdómsríkt, dýrmætt og oft mjög gefandi.

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Við ykkur vil ég hins vegar segja:  Kærar þakkir fyrir stuðninginn og þolinmæðina t.d. þegar ég var að læra tungutak í landbúnaði eða elta hrúta uppi í hlíð án þess að vita betur. Þakkir fyrir þann stuðning sem þið sýnduð mér og minni fjölskyldu á erfiðum tíma fyrir tveimur árum, þakkir fyrir góð samskipti og skoðanaskipti um verkefni sveitarfélagsins og svo endalaust margt annað.  Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er það alltaf fólkið sem skiptir mann mestu, hvar sem maður býr. Það hefur ekkert breyst þrátt fyrir þetta.

Framundan eru mörg mjög spennandi verkefni í Strandabyggð tengd uppbygginu og endurskipulagningu sveitarfélagsins, undirbúningsvinna fyrir sameiningarviðræður í náinni framtíð sem og vinna við fjárhagslega úttekt og heildargreiningu á kostnaðar- og tekjuliðum sveitarfélagsins. Mjög þörf úttekt og endurskipulagning.

Ég hvet ykkur Strandamenn til að hugleiða framtíðina, hvernig þið viljið sjá Strandabyggð þróast og jafnvel með hverjum. Hér búum við að miklum lífsgæðum, þakkarverðum lífsgæðum.

Að ári, vorið 2022, kemur svo í ljós hverja þið kjósið til að leiða þetta sveitarfélag áfram inn í nýja tíma.  Þar liggur valdið. Hið vandmeðfarna vald. Hjá ykkur.

Kveðja,
Þorgeir

20.04.2021 22:01

Sveitarstjóra í Strandabyggð sagt upp störfum og honum er meinað að koma inn á sinn kontor


Sveitarstjóra í Strandabyggð sagt upp störfum

Salbjörg Engilbertsdóttir | 20. apríl 2021

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur sagt Þorgeiri Pálssyni sveitarstjóra upp störfum. Ólík sýn á stjórnun og málefni sveitarfélagsins hefur orðið þess valdandi að leiðir sveitarstjórans og sveitarstjórnar liggja ekki lengur saman. Samstaða er í sveitarstjórn um ákvörðunina. Ekki er óskað eftir því að Þorgeir vinni uppsagnarfrest sinn sem eru þrír mánuðir og hefur hann þegar látið af störfum. Sveitarstjórn hyggst taka sér nokkra daga til að ákveða næstu skref. Skrifstofa Strandabyggðar tekur við erindum og málum og sveitarstjórn mun verða starfsfólki til aðstoðar við úrlausn mála.

Sveitarstjórn þakkar Þorgeiri fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar í nýjum verkefnum.

 Sveitarstjórn Strandabyggðar

  • 1