12.09.2007 23:02

Áfram sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum.



Sérsniðin veiðiskapur fyrir sportveiðimenn. Má veiða fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga, aðra daga er bannað að veiða. Nær væri að snúa þessu akkúrat við þannig að bannað væri að veiða á þessum veiðidögum sem ofan greinir. Þessi vitleysa kemur mér ekki á óvart.

MBL FRÉTT 12 september 2007.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefur ákveðið að rjúpnaveiðitímabilið í ár standi frá 1. til 30. nóvember en í fyrra var tímabilið frá 15. október til 30. nóvember. Mælt er með því að veiddir verði að hámarki 38.000 fuglar. Áfram mun ríkja sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum. Ákvörðunin byggir á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði árið 2006. Umhverfisráðuneytið segir, að rjúpum fækki nú annað árið í röð frá síðasta uppsveifluskeiði, en það stóð aðeins yfir í tvö ár samanborið við fjögur til fimm ár í fyrri uppsveiflum rjúpnastofnsins. Að mati Náttúrufræðistofnunar er áætlaður varpstofn nú um 110.000 fuglar og er það fækkun um 70.000 fugla frá því í fyrra.

Við mat á veiðiþoli er miðað við að hlutföll unga í veiðistofni verði 79%, það sama og talningar sýndu síðsumars 2007. Stærð veiðistofns 2007 er metin um 440.000 fuglar og með því mælt að ekki verði veiddir fleiri en 38.000 fuglar í ár.

Ráðuneytið segir, að miðað við fyrri reynslu af rjúpnastofninum í niðursveiflum, muni rjúpum fækka næstu þrjú til fjögur árin og veiðiþol stofnsins minnka að sama skapi. Það sé því ljóst að takmarka þarf rjúpnaveiði enn frekar í ár en gert hafi verið á síðustu árum.

Í ákvörðun umhverfisráðherra felst eftirfarandi:

  • Veiðidagar verða alls 18 á tímabilinu 1. til 30. nóvember.
  • Veiðar verða heimilaðar fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga.
  • Sölubann gildir áfram á rjúpu og rjúpnaafurðum.
  • Áfram verður friðað fyrir veiði u.þ.b. 2600 ferkílómetra svæði á Suðvesturlandi.
  • Veiðimenn verða sem fyrr hvattir til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar.
  • Virkt eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti eftir því sem kostur er.