13.03.2008 22:25
Hvalaskoðun og hvalveiðar á Steingrímsfirði og í Djúpinu.
Síðustu daga hafa forkólfar ferðaþjónustuaðila verið að lýsa því yfir í flestöllum fréttatímum og í blöðum að þeir ætli að fara með fólk til hvalaskoðunar á Steingrímsfirðinum og líka í Ísafjarðardjúpinu nú í sumar. Að sögn þessara forkólfa sem ætla að fara í þessar hvalaskoðunarferðir hér við fjörðin og í djúpi, að eftirspurn eftir svona hvalaskoðunarferðum væri mikil og væntanlega munu þessir aðilar sem ætla að fara með ferðafólkið til slíkra náttúruskoðunar að fjárfesta í skipum og manna þau.
Þá kemur upp spurningin þegar hrefnuveiðimennirnir Gunnar Jó og Hrefnu Konni koma á svæðið þar sem ferðaþjónustuaðilarnir eru að sýna fólki hvali og þeir plumma á hvalina rétt við nefið á hinum. Ætli ferðaþjónustuaðilarnir mundu vera par hrifnir af slíkri veiði, varla, en hvalaskoðunarferðamennirnir yrðu örugglega glaðir og kátir að geta upplifað hvorutvegga að skoða lifandi hval og líka þegar hvalurinn er skotin og verkaður um borð í hrefnuveiðibátunum, ekkert annað en gaman gaman.
Auðvitað geta vel farið saman að skoða hvali frá landi og eða báti og líka þegar hrefnan er skotin og skorin, mikið sjónarspil. Samanber þegar hvalirnir voru drepnir og dregnir á land í Hvalfirði fyrir rúmum tveimur árum síðan, hvalstöðin í Hvalfirði fylltist af forvitnu fólki til að skoða þetta mikla undur sem hvalurinn er. Og eg var einn af þeim sem skoðaði þessa miklu skepnu dregna á land og skorna, mikil upplifun.
Sumt fólk sem er að tala um hvali, að það fólk ef til vill elskar hvalina meira en börnin sín, og sumir hvalir hafa verið ættleiddir, og alltaf er sama sagan hjá friðunarliðinu á sjó og á landi, Hvalirnir eru svo gáfaðir og fallegir og eru í þeirra augum heilagar kýr. Er ekki flest það sem við étum fallegt, eg er nú smeikur um það. Lömbin, kálfarnir, hrossin, hreindýrin, rjúpan, gæsin, endurnar, fiskarnir í sjónum og laxin í ánum sem bítur á agnið og hann berst við veiðimannin í langan tíma örmagna af þreytu og er síðan sleppt aftur í ána, helsærðum í munni og örugglega víðar, er þetta veiðiskapur, eg bara spyr. Er einhvert vit í þessu, svarið er afar einfalt nei.
Þannig að niðurstaðan er afar einföld sem er þessi, Hvalveiðar og hvalaskoðun fara auðvitað vel saman á allan hátt, annað er algjör fjarstæða. Ferðaþjónustuaðilar sem ætla að þeir séu teknir alvarlega verða að vinna saman með hvalveiðimönnunum. Hvalveiðimennirnir sem hafa stundað hrefnuveiðar hér á Steingrímsfirðinum til fjölda ára mundu örugglega samþykkja samvinnu við þá aðila sem ætla sér að fara út í hvalaskoðunarferðir. Hvalaskoðun og veiðar á þeim er málið.