29.01.2009 09:40

"Ef ekki núna þá aldrei"

 
Veiðar á hrefnu og langreyðum eru leyfðar næstu fimm árin samkvæmt reglugerð sem Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið út. Leyfilegur heildarafli skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir. Konráð Eggertsson, hrefnuveiðimaður, segir þessi tíðindi afar ánægjuleg. "Það var nú kominn tími til að þetta yrði leyft. Nú vantar vinnu og gjaldeyri og ef ekki núna og þá aldrei," segir Konráð. Hann segir nóg af hval í hafinu. "Jú, maður lifandi. Það er ekki spurning í okkar huga. Spurningin er hvar maturinn er og hvalurinn er þar, það er einfalt mál. Þetta er eins og með aðrar skepnur, þær flytja sig þangað sem eitthvað er að hafa, og maðurinn gerir það líka," segir Konráð. Hann segist hafa hugsað sér að kaupa stóran hvalveiðibát sem getur farið víðar í kringum landið. Einnig ætlar hann að hafa tvo minni báta með, en segir annars óráðið hvað verður.

Veiðar á langreyðum hófust í atvinnuskyni haustið 2006, en hafa legið niðri síðan vegna óvissu um sölu afurða. Nú hefur þeirri óvissu verið eytt. Veiðar á hrefnu í vísindaskyni hófust árið 2003 og lauk árið 2007. Alls voru veidd 200 dýr. Veiðar á hrefnu í atvinnuskyni hófust árið 2006 og hafa verið stundaðar síðan. Alls hafa 46 dýr verið veidd í atvinnuskyni og afurðirnar að langmestu leyti farið á innlendan markað. Á þessum tíma hafa því alls verið veiddar 246 hrefnur.

Leyfi til veiða á hrefnu á árunum 2009-2013 skal veita þeim íslensku skipum sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig er heimilt að veita leyfi þeim einstaklingum eða lögaðilum sem að mati ráðherra hafa sambærilega reynslu af útgerð á hrefnuveiðum í atvinnuskyni. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013.

Sú ákvörðun að veiðiheimildir séu til 5 ára er í samræmi við almenna venju innan Alþjóða hvalveiðiráðsins. Þar eru veiðiheimildir, t.d. Bandaríkjanna, jafnan ákveðnar til 5 ára í senn. 

Heimild bb.is