19.07.2010 11:45
FRÉTTATILKYNNING FRÁ LAUGARHÓL Í BJARNARFIRÐI Á STRÖNDUM.
TÓNLISTARHÁTÍÐ Á LAUGARHÓLI Á STRÖNDUM
MUGISON, PÉTUR BEN, LÁRA RÚNARS OG POLLAPÖNK
LAUGARDAGINN 24. JÚLÍ 2010
Mugison, Pétur Ben, Lára Rúnars og hljómsveitin Pollapönk munu troða upp, hvert í sínu lagi, og hvert með öðru, á tónlistarhátíð sem haldin verður á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði á Ströndum laugardaginn 24. júlí næstkomandi. Enginn aðgangseyrir er að hátíðinni og allir velkomnir, börn og fullorðnir.
Hótel Laugarhóll er heimilislegt sveitahótel rétt norðan Hólmavíkur og með nýjum vegi um Arnkötludal frá mynni Gilsfjarðar yfir á Strandirnar er þetta skottúr af Höfuðborgarsvæðinu. Um álíka langan veg er að fara frá Ísafirði.
Á Hótel Laugarhóli er kósí kaffihús og fyrirtaks veitingastaður, góð gistiaðstaða í uppbúnum rúmum, en einnig er boðið uppá svefnpokapláss. Þar eru líka vel gróin tjaldstæði með rennandi vatni og salernum.
Gvendarlaug, náttúruleg heit uppspretta sem miðlar geistlegum kröftum frá Guðmundi hinum góða, er við Hótel Laugarhól, og 25 metra löng, ylvolg sundlaug sem Ungmennafélagið Grettir byggði fyrir tæplega 70 árum, vermir líkama og sál.
Á Laugarhóli er einnig að finna Kotbýli kuklarans, annálað safn sem veitir góða innsýn í lifnaðarhætti almúgafólks á Ströndum fyrr á tíð.
Örn Elías Guðmundsson eða Mugison er óþarft að kynna svo rækilega hefur hann heillað tónlistarunnendur um árabil.
Pétur Ben sem hefur troðið upp með Mugison í gegnum tíðina hefur og getið sér firnagott orð fyrir tónsmíðar, meðal annars fyrir kvikmyndirnar Börn og Foreldra.
Hróður söngkonunnar Láru Rúnarsdóttur vex ört um þessar mundir. Hún er einn þeirra ungu tónlistarmanna sem hafa menntað sig í klassískri tónlist og vinna fyrir sér í alþýðuheimum tónlistarinnar. Fyrstu útgáfur Láru hafa slegið í gegn og skorað jafnvel enn hærra en upptroðslur hennar í óperum.
Halli og Heiðar í Botnleðju kalla sig Halli-lúja og Heiðar Aleld á nýútgefinni plötu skipa hljómsveitina Pollapönk. Þeir hafa slegið rækilega í gegn hjá yngstu kynslóðinni sem og þeim sem eldri eru. Pollapönk er hljómsveit fyrir alla. Konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla.
Þegar menn hafa hreiðrað um sig á hótelinu, eða skellt upp tjaldinu og rúllað út svefnpokum, svamlað í lauginni, kíkt í kotbýlið og haft það kósí, hefja Pollapönkarar leikinn kl. 17. Smá grillpása og síðan stíga þau hvert af öðru á sviðið í salnum á Laugarhóli, Lára, Pétur og Mugison, og spila sundur og saman á ljúfum og léttum útilegunótum. Velkomin á Tónlistarhátíð á Laugarhóli í Bjarnarfirði.
Nánari upplýsingar veita staðarhaldarar, Einar og Dísa, í s. 698 5133 eða 862 7695.
Skrifað af J.H. Hólmavík.