20.01.2016 20:17

Sveitarstjórn Strandabyggðar fordæmir ákvörðun Íslandspósts (sjá samþykkt sveitastjórnar í gær)


Samantekt frá Aðalsteini Óskarssyni f.h. FV um skerta póstþjónustu á landsbyggðinni, dagsett 8/1/2016

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

"Sveitarstjórn Strandabyggðar hafa borist upplýsingar þess efnis að Íslandspóstur hafi sagt upp verktakasamningi við starfandi landpóst í sveitarfélaginu og nágrannasveitum. Er uppsögnin til komin vegna fyrirhugaðrar skerðingar á póstþjónustu í sveitum en samkvæmt reglugerðarbreytingu frá október 2015 er fyrirtækinu heimilt að fækka dreifingardögum í viku hverri um helming.

Sveitarstjórn fordæmir þessa ákvörðun Íslandspóst og mótmælir henni harðlega. 

Bent skal á að flestir þeir sem skert póstþjónusta bitnar á hafa ekki kost á annarri þjónustu af sama toga þar sem ekki er um aðra dreifingaraðila að ræða  auk þess sem sömu svæði búa við lítið sem ekkert netsamband. Önnur afleiðing skertrar póstþjónustu er enn meiri fækkun starfa á landsbyggðinni og má líkja ákvörðun sem þessari við það að enn einn naglinn sé rekinn í líkkistu dreifbýlis á landsbyggðinni.

Sveitarstjórn Strandabyggðar skorar á forsvarsmenn Íslandspósts um að endurskoða ákvörðun sína um skerðingu á póstdreifingu í sveitum sem og uppsagnir á verktakasamningum við Landpósta.

Sveitarstjórn Strandabyggðar skorar jafnframt á ráðamenn þjóðarinnar að endurskoða breytingar á reglugerðum sem heimila skerta póstþjónustu í sveitum og að koma í veg fyrir allar slíkar skerðingar þar til önnur þjónusta hefur verið tryggð, s.s. með því  að tryggja aðgang að netþjónustu í allar dreifðar byggðir."

 Nánar hér á vef Strandabyggðar   - http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/sveitastjorn/Sveitarstjorn_Strandabyggdar_1244_-_19_januar_2016