11.07.2011 21:47

Segja hreindýr ekki smita sauðfé.

                                          FRÉTT  TEKIN  AF  BB.IS  Í  DAG.

Hreindýr geta ekki smitað sauðfé af riðu eða garnaveiki, að áliti sænska yfirdýralæknisembættisins sem áhugamenn um flutning hreindýra til Vestfjarða hafa beðið um. Áhugamennirnir hafa undanfarin misseri barist fyrir því að fá leyfi til slíks. Sjá áhugamennirnir nokkurn fjárhagslegan ávinning fyrir landeigendur og sveitarfélög í því að laða að hreindýraveiðimenn.

Helstu rökin gegn flutningi dýranna vestur eru hættan á riðu og garnaveiki. Yfirdýralæknir hefur sagt að þetta komi ekki til greina, auk þess sem sveitarstjórn Strandabyggðar, sem hefur fengið málið inn á sitt borð, stendur á móti þessum hugmyndum af sömu ástæðum. Magnús Ólafs Hansson á Patreksfirði er einn hvatamanna. Í samtali við Ríkisútvarpið vitnar hann í álit sem íslenskur dýralæknir hefur gert. Þar segir meðal annars þetta: "Engin reynsla er á því að hreindýrin hafi flutt með sér eða verið smitberar riðu eða garnaveiki. En sannleikurinn er sá að nánast engin sýnataka liggur fyrir úr hreindýrum hér á landi, hvorki úr veiddum dýrum sem komu á hreindýraverkunarstöðvarnar eftir veiðar eða fundin sjálfdauð dýr."

Þar sem upplýsingar vantar frá Íslandi leituðu áhugamennirnir til útlanda. "Við erum að fá faglegt mat, skriflegt, frá sænska yfirdýralæknisembættinu. Fyrstu upplýsingarnar sem við fengum í gegnum síma voru þær að þeir telji ekki nokkra einustu ógn af hreindýrum gagnvart sauðfé, heldur sé hugsanlega um að ræða smitsjúkdóma úr sauðfé í hreindýr," segir Magnús. Frá þessu var greint á vef Ríkisútvarpsins.